Við fögnum endurkomu SsangYong

skrifað föstudagur, 5. september, 2014
rexton_korando_PRrexton_korando_PR

Nýlega bárust þau tíðindi, frá Bílabúð Benna, að jeppar frá SsangYong væru komnir til landsins. Nokkuð er um liðið frá því að fyrirtækið flutti síðast inn bíla frá SsangYong. Að sögn Benedikts Eyjólfssonar hefur Bílabúð Benna nýlega endurnýjað samning sinn við fyrirtækið og fengið fyrstu sendingu af glænýjum jeppum af gerðinni Rexton og Korando í salinn til sín.

“Við höfum haldið góðu sambandi við SsangYong í gegnum tíðina og njótum nú, sem fyrr, góðs af sérlega metnaðarfullri þróunarvinnu fyrirtækisins,” segir Benedikt. “Við hlökkum til að endurnýja kynni íslenska markaðarins af þessum frábæra framleiðanda og munum halda sérstaka sýningu á nýju jeppunum frá SsangYong í Chevrolet salnum, Tangarhöfða, nú á laugardaginn, frá kl. 12:00 til 16:00.”

Óhætt er að fullyrða að byrjunin lofi góðu því Rexton er fullvaxinn, vel búinn jeppi á grind, með háu og lágu drifi. Nýi Korando jeppinn á vafalaust líka eftir að vekja athygli. Hann er fjórhjóladrifinn með 175 hestafla dísilvél og læsanlegu fjórhjóladrifi. Nýja Korando sportjeppanum hefur verið vel tekið þar sem hann hefur verið kynntur enda virkilega vel búinn og skemmtilegur bíll hér á ferðinni. Það sem kemur þægilegast á óvart, í báðum tilvikum, er verðið, en það verður að teljast afar hagstætt. Verðið á beinskiptum Korando er kr. 4.990.000 og fjórhjóladrifinn og sjálfskiptur Korando, sem er afar sjaldgæfur kostur í þessum flokki, er á 5.790.000 kr. Verðið á Rexton er kr. 6.990.000,-.