Metþátttaka á Porsche Criterium mótinu

skrifað mánudagur, 19. maí, 2014
 Porsche Criterium Porsche Criterium

Það vantaði ekkert uppá hraða og spennu í frábærlega vel heppnuðu Porsche Criterium mótinu sem fram fór á Völlum í Hafnarfirði á fimmtudaginn. Mótið var á vegum Hjólreiðafélags Reykjavíkur í samstarfi við Bílabúð Benna og var framkvæmd öll hin glæsilegasta.

Greinilegt er að fólk er að uppgötva skemmtanagildi Criterium keppnisfyrirkomulagsins í ríkari mæli; metþátttaka var í mótinu að þessu sinni og fjölmargir áhorfendur fylgdust með og fögnuðu vel á kantinum. Aðstæður til keppni voru lengst af góðar en skyndileg rigning og bleyta reyndu mjög á keppendur. Þrátt fyrir nokkuð erfiðar aðstæður af þeim sökum og fjölda keppenda var aðeins eitt óhapp, en allt fór þó vel. Aðstandendur mótsins vilja þakka þeim fjölmörgu þátttakendum og áhorfendum sem lögðu leið sína í Hafnarfjörðinn af þessu tilefni.

HFR vill þakka Bílabúð Benna fyrir stuðninginn og að gera umgjörð mótsins glæsilega. Innes sá um hressingu að lokinni keppni og fá þeir bestu þakkir fyrir veittan stuðning Ekki má gleyma öllum sjálfboðaliðunum, en svona framkvæmd veltur á þeirra framlagi, þeir fá sérstakar þakkir fyrir frábært starf. Hittumst að ári.

Sigurvegarar Porsche Criterium 2014 Árni Már Jónsson í HFR sigraði í A-flokki karla eftir langa og stranga baráttu við Hákon Hrafn Sigurðsson og Valgarð Guðmundsson. Í kvennaflokki bar María Ögn Guðmundsdóttir Tindi sigur úr býtum, en Alma María Rögnvaldsdóttir 3SH varð önnur og Margrét Pálsdóttir HFR þriðja.

Í B-flokki sigraði Egill Gylfason CFRvk eftir góðan endasprett við Gunnar Örn Svavarsson HFR sem hafnaði í öðru sæti og í þriðja sæti var Kristján Oddur Tindi. Hrönn Ólína Jörundsdóttir sigraði kvennaflokkinn.

Sú nýbreytni var í ár að auk venjulegra A og B flokkar var boðið upp á C-flokk fyrir byrjendur. Þátttökuskilyrði í þann flokk var að hafa ekki keppt áður í Criterium. Frábær þátttaka var í C-flokknum. Vonumst við til að margir úr þeim hópi láti sjá sig á æfingum og fleiri hjólakeppnum sumarsins.

Sigurvegari í C-flokki var Björgvin Fjeldsted, í öðru sæti var Stefán Haukur Erlingsson og í þriðja sæti var Ólafur Tryggvason. Það var flott keppni í kvennaflokki þar sem Guðný Steina Pétursdóttir CFRvk kom fyrst í mark, önnur var Ása Magnúsdóttir Hjólamenn og í þriðja sæti var Jónína B Erlingsdóttir.

Krýndir voru sprettmeistarar kvenna og karla. Hákon Hrafn og María Ögn voru hlutskörpust að þessu sinni.

Sigurvegarar Porsche Criterium 2014:
 Í kvennaflokki bar María Ögn Guðmundsdóttir Tindi sigur úr býtum, en Alma María Rögnvaldsdóttir 3SH varð önnur og Margrét Pálsdóttir HFR þriðja.Sigurvegarar Porsche Criterium 2014 Árni Már Jónsson í HFR sigraði í A-flokki karla eftir langa og stranga baráttu við Hákon Hrafn Sigurðsson og Valgarð Guðmundsson.