Porsche Criterium - hjólreiðakeppnin

13. maí 2015

skrifað þriðjudagur, 12. maí, 2015
criteriumcriterium

Hjólreiðafélag Reykjavíkur og Bílabúð Benna halda Porsche Criterium þann 13. maí næstkomandi.

Criterium keppnir eru stuttar hjólreiðakeppnir, annálaðar fyrir mikinn hraða, og mikla spennu. Hjólaður er 1.9km langur hringur á Völlunum í Hafnarfirði, en þar eru góðar aðstæður, slétt og gott malbik, breiðar beygjur, auk þess sem lausamöl verður hreinsuð af brautinni fyrir mót.

Það ætti því ekki margt að koma í veg fyrir hraða og skemmtilega keppni í ár.

Criterium fer þannig fram, að hjólað er í hringi, og ef keppandi er hringaður lýkur hann keppni og hjólar að rásmarki. Þannig getur það verið markmið í fyrir hægari keppendur að vera ekki hringaðir af hröðustu mönnum í sama flokki. Keppnissniðið hefur lengi verið mjög vinsælt erlendis, en hérlendis eru þessi mót að vaxa vel í vinsældum, og voru 3 criterium mót haldin hérlendis á síðasta keppnistímabili.

Þessi keppni hefur verið haldin í nokkur ár, og hefur fjöldi þátttakenda farið vaxandi með hverju árinu. Höfum við verið einstaklega heppin með veður síðustu ár, og vonum að þar verði framhald á. Keppt er á götuhjólum, í nokkrum flokkum karla og kvenna, A og B þar sem A flokkur fer 14 hringi og B flokkur 10 hringi, en að auki er boðið upp á C-flokk þar sem farnir eru 6 hringir. C-flokkurinn er hugsaður fyrir byrjendur.

Einnig verða veitt sérstök sprettmeistaraverðlaun, þar sem sprettharðasti einstaklingurinn í mótinu er heiðraður.

Við vonumst að sjálfsögðu til að sjá sem flesta koma og keppa, en mótið er einnig frekar áhorfendavænt, og eru allir velkomnir á vellina til að fylgjast með mótinu. Hver riðill tekur ekki langan tíma, og því getur verið gaman fyrir krakka að koma og fylgjast með og hvetja foreldra sína til dáða.

Mótið hefst með keppni c-flokks kl. 19:00 og svo taka hinir flokkarnir við 19:30 og 20:15

Allar nánari upplýsingar um mótið og skráningu má nálgast á vefsvæði HFR http://www.hfr.is/

Skráning í A og B flokk fer fram hér: http://hjolamot.is/keppni/121

Skráning í C flokk fer fram hér: http://hjolamot.is/keppni/122

https://www.facebook.com/events/434906520024233/