Metmánuður hjá Porsche

skrifað miðvikudagur, 13. maí, 2015
Sportjeppinn Macan á sinn þátt í velgengni Porsche á heimsmarkaði.Sportjeppinn Macan á sinn þátt í velgengni Porsche á heimsmarkaði.

Ekkert lát er á góðu gengi Porsche á heimsvísu. Nýliðinn apríl reyndist sá söluhæsti í sögu fyrirtækisins, sem afhenti 21.500 ánægðum eigendum nýjan Porsche í mánuðinum.

Þetta magn svarar til 32% aukningar í sölu miðað við sama mánuð árið 2014. Þetta gerir 72.500 eintaka heildarsölu fyrstu fjóra mánuði ársins. “Okkur lánaðist að virkja þann góða meðbyr sem fyrstu mánuðir ársins veittu okkur og þökkum það þeirri breiðu línu sem aðdáendum Porsche stendur til boða,” segir Bernhard Maier, yfirmaður markaðsmála hjá Porsche AG. “ Nýi Boxster Spyder sportbíllinn, sem við frumsýndum í New York í byrjun aprílmánaðar, er lýsandi dæmi um þann ófrávíkjanlega metnað sem einkennir sportbílaframleiðslu okkar og viðskiptavinir Porsche um allan heim kunna að meta.” Það er sama hvar borið er niður á mörkuðum heimsins, sala aprílmánaðar 2015 sló alls staðar met. Í Kína t.d. nam söluaukningin 46%, miðað við apríl í fyrra. Aukningin í Bandaríkjunum nam 28% og dreifist það jafnt á allar gerðir; 911, Boxster, Cayman, Cayenne, Macan og Panamera. Sömu sögu er að segja af velgengni sportbílagoðsagnarinnar 911, þar sem um 16% söluaukningu er að ræða.